Lýst eftir vitnum að málningarslysi

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskar eftir vitnum að því þegar málningarfata féll af ökutæki á Sandskeiði eftir hádegi sl. fimmtudag.

Atvikið átti sér stað á Suðurlandsvegi, skammt norðan Bláfjallaafleggjarans, eftir hádegi sl. fimmtudag, 24. júní. Þar féll málningarfata af ökutæki og slettist úr henni á nokkra bíla sem á eftir komu.

Í kjölfarið var veginum lokað þar til hreinsunarstarf hafði farið fram. Var það gert bæði til að koma í veg fyrir skemmdir á fleiri ökutækjum en ekki síður til að koma í veg fyrir slys en bílar geta hæglega runnið til á veginum við slíkar aðstæður.

Þeir sem kunna að búa yfir upplýsingum um málið eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögreglustöðina á Krókhálsi í Árbæ í síma 444-1190 á skrifstofutíma.