Lýst eftir ökumanni jeppa

Að kvöldi laugardagsins 29. janúar sl. varð umferðaróhapp á Heiðmörk á Selfossi.

Breyttri, ljósri jeppabifreið var ekið aftur á bak og á bifreið sem var fyrir aftan. Talsvert tjón varð á fólksbifreiðinni.

Ökumaður jeppans, ungur karlmaður á aldrinum 20 til 30 ára, ræddi við konu sem á fólksbílinn. Hann sagði konunni að hann myndi hafa samband við hana næstu daga. Konan hefur ekki heyrt neitt frá manninum síðan.

Lögreglan beinir því til ökumanns jeppans að gefa sig fram við lögregluna á Selfossi í síma 480 1010 þannig að hægt verði að koma málinu í réttan farveg hjá tryggingafélögum.