Lýsir yfir óvissustigi vegna norðanáhlaups

Vindhraðaspá í 10 m hæð y.s. kl. 7:00 í fyrramálið.

Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjórann á Suðurlandi, hefur lýst yfir óvissustigi Almannavarna frá og með kl. 18:00 í kvöld, mánudaginn 2. júní, vegna norðanáhlaups sem spáð er næsta sólarhringinn.

Ákvörðunin er einnig tekin í samráði við lögreglustjórana á Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra og Austurlandi.

Spáð er norðan hvassviðri með hvössum vindhviðum, sem getur skapað hættulegar aðstæður fyrir ökutæki sem taka á sig vind. Á ákveðnum svæðum er einnig búist við snjókomu og skafrenningi, sem getur valdið verulega skertum akstursskilyrðum og samgöngutruflunum, einkum á fjallvegum.

Í nótt og á morgun verður hvassast undir Vatnajökli, norðan 18-25 m/sek með hviðum yfir 40 m/sek og hættulegar aðstæður fyrir ökutæki.

Almannavarnir hvetja ferðafólk og almenning að:
➡️ Fylgjast vel með veðurspám og viðvörunum á vef Veðurstofu Íslands.
➡️ Fylgjast með færð og aðstæður á vegum á vef Vegagerðarinnar.
➡️ Athuga með lausamuni sem geta fokið og valdið tjóni
➡️ Gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja öryggi sitt og annarra.

Almannavarnir hvetja einnig almenning og ferðaþjónustuaðila til að aðstoða við að upplýsa erlent ferðafólk um veðrið sem framundan er, og tryggja að viðeigandi ráðstafanir séu gerðar til að tryggja öryggi þess.

Fyrri greinÖrn tók silfrið á Smáþjóðaleikunum
Næsta greinSjálfstæðisflokkurinn stærstur í Suðurkjördæmi