Lyngheiðin skemmtilegasta gatan

Lyngheiði er skemmtilegasta gatan á Selfossi 2012. Íbúar götunnar stóðu öðrum framar í skreytingum á bæjarhátíðinni Sumar á Selfossi.

Í kvöld fór fram hinn árlegi sléttusöngur þar sem hátt í fimmþúsund manns komu saman og sungu undir stjórn Ingólfs Þórarinssonar.

Þar voru einnig veitt verðlaun fyrir skreytingar en Selfyssingum hljóp mikið kapp í kinn í skreytingunum í ár og víða mátti sjá skemmtilegar hugmyndir. Bláa hverfið var valið flottasta hverfið, Kjarrhólar 2 hjá Þóru S. Jónsdóttur og Þorsteini Magnússyni var valið best skreytta húsið og Lyngheiðin fékk aðalverðlaunin með sitt Strumpaþema.

Í lokin var mögnuð flugeldasýning í umsjón Björgunarfélags Árborgar og í nótt eru dansleikir í bæjargarðinum og í Hvítahúsinu.

Fyrri greinMetvika í Veiðivötnum
Næsta greinBarst hálfan kílómeter með straumnum