Lyktnæmir lögreglumenn fundu kannabis

Lögreglumenn á eftirlitsferð um Eyrarbakka runnu á kannabislykt í þorpinu í gærkvöldi.

Heitt var í veðri og rúður skrúfaðar niður á lögreglubílnum en lögreglumönnunum fannst kannabislykt bregða fyrir og röktu hana að ákveðnu húsi.

Þeir bönkuðu uppá og leyndi sér ekki að í húsinu var kannabisverksmiðja þegar húsráðandi kom til dyra.

Par á þrítugsaldri var að vinna við kannabisframleiðsluna og var fólkið handtekið og gisti fangageymslur í nótt. Lögreglan lagði hald á þrjátíu fullvaxnar plöntur, nýja græðlinga og allan búnað verksmiðjunnar.