Lyklarnir að miðlunargeyminum voru faldir inni í agúrku

Guðmundur Hjaltason, Hannibal Kjartansson og Hákon Páll Gunnlaugsson. Ljósmynd/Aðsend

Síðastliðinn miðvikudag var köldu vatni hleypt á nýjan miðlunargeymi á Berghylsfjalli í Hrunamannahreppi. Verktakinn við bygginguna var Selásbyggingar ehf. og svo skemmtilega vildi til að daginn áður voru liðin slétt tuttugu ár frá vígslu vatnstanks á Langholtsfjalli í sömu sveit, sem Selásbyggingar byggðu einnig.

Við þessi tímamót færði Hákon Páll Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri Selásbygginga, Vatnsveitu Hrunamannahrepps lyklavöldin að miðlunargeyminum og Hannibal Kjartansson, umsjónarmaður vatnsveitu, tók við þeim. Lyklarnir voru reyndar faldir inni í agúrku, sem einmitt er 87% vatn. Hákon færði einnig Guðmundi Hjaltasyni, eftirlitsaðila verksins frá Eflu verkfræðistofu, veglegan blómvönd og þakkaði honum fyrir gott samstarf við krefjandi verkefni.

Miðlunargeymirinn er í 232 metrum yfir sjávarmáli, 6 kílómetrum fyrir innan Berghyl en ekið er um vegslóða í bröttu landi til að komast að honum.

Tankurinn sjálfur tekur um 300 þúsund lítra og er sambyggður 40 m² lokahúsi, sem er með fullkomnustu rafmagnsstýrðum vatnslokum sem völ er á. Geymirinn mun miðla streymi vatns til dreifðra býla í Hrunamannahreppi og einnig í byggðakjarnann á Flúðum.

Helstu undirverktakar voru Flúðuverktakar ehf. sem sáu um jarðvinnu, Plast og Suða ehf. á Flúðuma sá um tengingar við veitu stofnlagna og Pípulagningameistari lagði lagnir fráveituvatns. Fjallaraf ehf. sá um raflagnir og tengibúnað, Sigurður Kárason járnsmíðar og ÞH Blikk lagði loftræstingu.

Selásbyggingar ehf. sá um uppsteypu miðlunargeymis og lokahúss og alla almenna smíðavinnu en verkstjóri og byggingarstjóri var Hákon Páll Gunnlaugsson húsasmíðameistari hjá Selásbyggingum.

Vatnstankurinn sjálfur er um 300 þúsund lítrar. Ljósmynd/Hákon Páll
Fyrri greinÁrborg aftur á toppinn
Næsta greinEnn bætir Snæfríður Íslandsmetið