Lygasögukeppni og stígvélafótbolti á Klaustri

Það verður margt um að vera á Kirkjubæjarklaustri og víðar í Skaftárhreppi í dag en dagskráin hefst með sveitamarkað í Tunguseli kl. 13.

Þar er í boði handverk og ýmsir munir, kaffisala, sveitakaffi og meðlæti (ath.enginn posi er á staðnum). Myndasýning frá 17. júní í Hrífunesi og Tunguseli. Á milli kl. 15 og 16 er síðan lygasögukeppni í Tunguseli.

Kl. 14 er árleg guðsþjónusta í bænhúsinu á Núpsstað. Þorgils Hlynur Þorbergsson guðfræðingur predikar. Séra Ingólfur Hartvigsson þjónar fyrir altari. Kristján Gissurarson frá Eiðum leikur á orgel. Félagar úr kórum prestakallsins leiða söng. Á eftir guðsþjónustu bíður ferðaþjónustan á Hvoli upp á kirkjukaffi.

Kl.16 er hlutavelta kvenfélaganna Hvatar og Kirkjubæjarhrepps í matsal Kirkjubæjarskóla á Kirkjubæjarklaustri. Miðaverði er stillt í hóf og engin núll. Ath. ekki verður posi á staðnum. Allur ágóði rennur til Styrktarsamtaka Heilsugæslunnar á Klaustri vegna kaupa á fjarlækningartækjum.

Kl. 17 er blásið til stígvélafótbolta á Klaustri á ný. Samkvæmt venju og biturri reynslu verður leikið “Klausturámóti-rest. Eins og var í gamla daga spila allir aldurshópar saman, og til að gæta jafnræðis verða allir í stígvélum; ekki bara sveitalúðarnir eins og í gamla daga. Leikið verður í 2×30 mínútur, 6-8 manns í liði, enginn má leika í meira en 5 mínútur í einu og ef einhver skorar mark fer hann sjálfkrafa í 10 mínútna bann. Vegna sögunnar getur dómarinn, ef hann sér ástæðu til, skikkað lið Klaustursbúa til að spila í krummafót.

Kl. 21 verður kvöldganga yfir Klausturheiði um Ástarbrautina með ferðaþjónustufyrirtækinu Slóðum. Ekkert þátttökugjald. Gangan hefst stundvíslega við Kaffi Munka, við Systrafoss, og endar við íþróttavöllinn á Kleifum um kl. 22:30. Þá hefst kvöldskemmtun við íþróttavöllinn með brekkusöng, brennu og flugeldasýningu. Rokksveit Jonna Ólafs og Labbi úr Mánum leiða brekkusönginn. Björgunarsveitin Kyndill sér um flugeldasýningu.

Á miðnætti hefst síðan dansleikur með Rokksveit Jonna Ólafs ásamt Labba úr Mánum í félagsheimilinu Kirkjuhvoli. Aldurstakmark er 16 ára og miðaverði er stillt í hóf, kr. 2.500.-

Fyrri greinBygging hótels að hefjast á Hellu
Næsta greinAðeins tvær athugasemdir