Lyfjaval opnar á Selfossi

Horft að fyrirhuguðu bílaapóteki Lyfjaval við Eyraveg á Selfossi Mynd/Arkís arkitektar

Lyfjaval vinnur nú að opnun útibús að Eyrarvegi 42 á Selfossi, þar sem Húsasmiðjan var áður til húsa. Stefnan er að Lyfjaval opni á haustmánuðum en með tilkomu þess verða apótekin á Selfossi alls fjögur.

„Við verðum í endurnýjuðu húsi með Nettó, hraðhleðslustöðvum Orkunnar og væntanlega fleiri fyrirtækjum. Við ætlum að bjóða upp á þrjár bílalúgur en það verður líka hægt að koma inn í nokkuð góða verslun,“ segir Svanur Valgeirsson, framkvæmdastjóri Lyfjavals, í samtali við sunnlenska.is.

Svanur Valgeirsson, framkvæmdastjóri Lyfjavals. Ljósmynd/Aðsend

Bílalúgurnar vinsælar
Svanur segir að þau hafi ákveðið að opna útibú á Selfossi eftir fjölda áskorana. „Við erum eins og forsetaframbjóðendurnir. Fólk kemur að máli við okkur,“ segir Svanur og hlær. „Að öllu gríni slepptu þá hafa bílalúgurnar okkar fallið fólki vel í geð. Selfyssingar hafa prófað þetta hjá okkur á höfuðborgarsvæðinu og líkað vel.“

„Við höfum verið hvött til að koma út á land með lúgu conceptið. Þetta verður sjötta bílaapótekið okkar og það áttunda í heildina. Við höfum leitað að heppilegum staðsetningum og þegar þetta húsnæði bauðst ákváðum við að slá til. Við erum mjög spennt fyrir því að hefja framkvæmdir. Húsið lítur mjög vel út á teikningum,“ segir Svanur.

Aðspurður hvenær Lyfjaval muni opna á Selfossi segir Svanur að það ráðist af því hvernig framkvæmdirnar ganga. „En með haustinu væri fullkomið.“

Apótek Lyfjavals í Hæðarsmára í Kópavogi. Ljósmynd/Aðsend

Þurfum gott fólk
Svanur segir að þau séu mjög spennt að opna útibú á Selfossi. „Þetta verður þá annað bílalúguapótekið okkar á landsbyggðinni. Hitt er í Reykjanesbæ. Okkur hefur hvarvetna verið vel tekið og nú erum við að huga að því að ráða fólk til starfa. Við byrjuðum á dögunum að auglýsa eftir lyfsöluleyfishafa og öðrum lyfjafræðingum og hvet ég heimafólk til að skoða hvort við getum ekki unnið saman. Við verðum með langan opnunartíma og þurfum því fólk í vaktavinnu, lyfjafræðinga og afgreiðslufólk. Við ætlum okkur að bjóða upp á flott apótek með fyrirtaks þjónustu. Til þess þurfum við gott fólk,” segir Svanur að lokum.

Hér fyrir neðan má sjá útlitstillögur vegna fyrirhugaðra breytinga á húsnæðinu við Eyraveg 42, frá Arkís arkitektum. Teymi arkitekta hjá Arkís sem starfa á skrifstofu þeirra á Selfossi og í Kópavogi hanna útlitið á byggingunni.

Mynd/Arkís arkitektar
Mynd/Arkís arkitektar
Mynd/Arkís arkitektar
Fyrri greinBjörgvin Franz rennir sér fimlega í falsettuna
Næsta greinMaríumessa Machauts flutt í Skálholti