Lummósveit Lýðveldisins leikur á þorranum

Í Vestur-Skaftafellssýslu eru tvö dvalar- og hjúkrunarheimili fyrir eldri borgara. Margt heimilisfólk þeirra hefur ekki heilsu eða ástæður til að sækja þorrablót í sínum heimasveitum og því býður Lummósveit Lýðveldisins íbúum heimilanna og gestum þeirra upp á alvöru þorraball inni á heimilunum.

Á þessum böllum leikur Lummósveitin vinsæla dægurtónlist frá 6. áratug síðustu aldar, en sveitin sérhæfir sig í þeirri tónlist.

Í ár gerðist sá skemmtilegi atburður á ballinu á Klausturhólum á Kirkjubæjarklaustri að heiðursmaðurinn og fyrrum hljómsveitarstjórinn Óskar Guðmundsson frá Selfossi tók í trommurnar með Lummósveitinni, en hann er nú um stundir heimilismaður þar. Óskar hefur sannarlega engu gleymt og takturinn sem hann gaf var fastur og flottur. Rúnar Pálsson frá Heiði í Mýrdal tók einnig lagið með sveitinni á Klaustri eins og honum einum er lagið.

Á ballinu á Hjallatúni í Vík kom svo stórsöngvarinn Jón Kr. Ólafsson frá Bíldudal, frjáls eins og fuglinn, til liðs við Lummósveitina og söng allmörg lög sem áheyrendur kunnu vel að meta.

Góður rómur hefur verið gerður að þessum böllum, sem nú eru haldin annað árið í röð, þar sem söngurinn hefur ómað og dansinn dunað og bros ljómað á hverri brá.

Lummósveit Lýðveldisins skipa: Brian Haroldsson bassi, Finnur Bjarnason trommur, Guðmundur Óli Sigurgeirsson píanó og söngur, Kristinn J. Níelsson gítar, Kristján Ólafsson saxófónn, harmónikka og klarinett, og Linda Agnarsdóttir söngkona.

oskar_gudmundsson2013tl_877649208.jpg
Kristján og Óskar í góðum fíling á þorraballinu á Klausturhólum. sunnlenska.is/Thomas Liebke

Fyrri greinSunnlendingur á Íslandsmetið í langlífi
Næsta greinDregið í Spurningakeppni átthagafélaganna