Lúlli löggubangsi slasaðist á höfði

Það var vitlaust að gera á bangsaspítalanum á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi á laugardaginn. Meðal þeirra sem þurftu aðhlynningu var Lúlli löggubangsi en hann kom í lögreglufylgd í sjúkrabíl.

Þetta er í þriðja sinn sem bangsaspítalinn kemur á Selfoss en þar mættu börn á aldrinum 3-6 ára og systkini þeirra með veika og slasaða bangsa, dúkkur eða önnur mjúkdýr. Um 150 bangsar og dúkkur þurftu á aðhlynningu að halda á laugardaginn og er það metaðsókn á Selfossi.

Þarna fóru börnin í hlutverk bangsaforeldra, komu í viðtal og kynntu fyrir bangsalæknum hvað amaði að. Svo var bangsinn skoðaður og unnið að því í sameiningu að koma honum til heilsu, hvort sem setja þurfti á þá plástur, taka röntgenmynd eða hvað annað sem upp gat komið.

Lúlli löggubangsi kom í lögreglufylgd á HSu í sjúkrabíl en Lúlli hafði lent í því að detta á hjólinu sínu og fékk kúlu og blóð á hausinn, en Lúlli var ekki með hjálm þegar hann var að hjóla.

Eftir að læknarnir höfðu gert að sárum Lúlla fór hann aftur heim en leyfði öllum krökkum sem vildu að skoða sjúkrabílinn og lögreglubílinn sem voru fyrir utan sjúkrahúsið með blikkandi blá ljós.

Hugmyndin að Bangsaspítalanum kemur frá Kanada og hefur slegið í gegn í mörgum löndum. Lýðheilsufélag læknanema hefur séð um verkefnið hér á landi og eru það fyrsta árs læknanemar sem sinna hlutverki bangsalæknanna.

Myndir frá deginum má sjá inni á sjukrabill.is

Fyrri greinSvalar flugkúnstir Selfosshrafnanna
Næsta greinÞórsarar flugu í næstu umferð