Löngu tímabært að efna gefin loforð

Barnaskólinn á Eyrarbakka. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Foreldrafélag Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri tekur heilshugar undir ályktun frá hverfisráði Eyrarbakka síðan í síðustu viku og telur að sjaldan eða aldrei hafi þörfin á uppfyllingu loforða við endurnýjun á skólahúsnæði verið jafn brýn.

„Við lítum til þeirrar lausnar að nýtt skólahúsnæði unglingadeildar verði sett í algjöran forgang hjá Árborg,“ segir í yfirlýsingu sem foreldrafélag BES sendi bæjarfulltrúum í Árborg í dag.

Í yfirlýsingunni kemur foreldrafélagið einnig á framfæri þakklæti til stjórnenda og starfsfólks skólans um að óska eftir úttekt á húsnæðinu sem og hversu hratt og örugglega var brugðist við niðurstöðum úttektarinnar. Eftir að mygla greindist í húsnæði skólans á dögunum var kennslu hætt strax og skólanum fundin bráðabirgðaaðstaða í Stað og á Rauða húsinu, þar sem kennsla hófst í dag.

Plássleysið bitnar á skólastarfinu
„Til hefur staðið að byggja nýtt húsnæði til að hýsa miðstig og unglingastig frá því árið 2010 og teljum við í foreldrafélaginu löngu orðið tímabært að efna þau loforð sem þá voru gefin. Það má líka telja til að síðan 2010 hefur miðstigið verið í húsnæði skólans á Stokkseyri sem einungis átti að hýsa yngsta stig skólans sem og verk- og listgreinar,“ segir í yfirlýsingu foreldrafélagsins.

„Plássleysið hefur virkilega bitnað á skólastarfi og er nú starfsemi skólans á víð og dreif, með engri varanlegri lausn í sjónmáli. Á síðustu önn kom svo enn önnur breyting til þegar ljóst var að íþróttahúsið á Stokkseyri er ekki lengur talið boðlegt til kennslu og þar með eru nemendur komnir í bráðabirgða íþróttahúsnæði á sama tíma og unglingadeild er á hrakhólum,“ segir ennfremur í yfirlýsingunni og bendir foreldrafélagið á að mikill vöxtur sé í báðum þorpunum við ströndina.

Boðlegt skólahúsnæði ekki ofarlega á forgangslistanum
„Mætti ætla að með þessum vexti myndi fylgja fjármagn til uppbyggingar á skóla og frístundamálum. En eins og málin virðast standa í dag hafa hagsmunir barna okkar og eðlilega krafa um boðlegt skólahúsnæði ekki verið ofarlega á forgangslista bæjarstjórnar Árborgar síðastliðin 15 ár. Nú er kominn tími til að sýna í verki að þorpin við ströndina séu ekki að mæta afgangi með því að hefja raunverulegt samtal um byggingu nýs skólahúsnæðis fyrir mið- og unglingastig Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri. Nú er komin tími til að orðum fylgi efndir,“ segir að lokum í yfirlýsingunni.

 

Fyrri greinBjargarlaus eftir bílveltu út í skurð
Næsta greinHamar fékk skell gegn toppliðinu