Löng bið eftir aðstoð lögreglu

Lögreglan á Hvolsvelli hafði afskipti af manni í Vík í Mýrdal aðfaranótt laugardags um síðustu helgi, eftir tilkynningu um að hann hefði gengið berserksgang fyrir utan skemmtistað í þorpinu.

Eftir því sem næst verður komist á maðurinn að hafa verið í bræðiskasti og höfðu félagar hans áhyggjur af því að hann yrði sér og öðrum að voða og hringdu í lögregluna.

Hún kom á staðinn um nóttina frá Hvolsvelli og hafði upp á manninum, og að sögn Sveins Rúnarssonar yfirlögregluþjóns var honum ekið heim til sín. Hann vildi ekki segja til um í hvernig ástandi maðurinn var þegar lögregla kom á staðinn.

Ekki er búsettur lögreglumaður í Vík og eftir því sem heimildir Sunnlenska segja var fólki sem varð vitni að hegðun mannsins nokkuð tekið að lengja eftir aðstoð lögreglunnar. Maðurinn hafi verið „kolruglaður“ og meðal annars tekið bíl og ekið honum um án þess að vera í ökuhæfu ástandi.

Sveinn segir að mönnun á vaktir sé háð því hvað sé um að vera á þjónustusvæði lögreglunnar og hann viti ekki til þess að ekki sé hægt að sinna útköllum til Víkur.

Fyrri greinJarðhitaskógurinn að Reykjum rannsakaður
Næsta greinRafmagni sló út vegna eldinga