Lón og hótel í bígerð í landi Sunnuhlíðar ofan Flúða

Fjárfestar hyggjast reisa tvö hundruð herbergja hótel í landi Sunnuhlíðar í Hrunamannahreppi, rétt norðan við Flúðir, skammt frá golfvellinum á Efra-Seli. Hafa þeir nú þegar gert kaupsamning um landskika undir hótelið og tryggt sér vatnsréttindi fyrir lónið.

Heitt vatn verður fengið úr borholunni á Kópsvatni og munu framkvæmdaaðilar borga lagningu leiðslu þaðan. „Við erum búnir að vera að vinna að þessu verkefni í vel rúmt ár en við erum að tala um tvö hundruð herbergja „wellness“ hótel með allt að hektara stóru baðlóni,“ segir Stefán Örn Þórisson, sem ásamt Birni Þór Kristjánssyni er í forsvari fyrir verkefnið.

Stefán Örn var hótelstjóri á Selfossi á KÁ tímabilinu og í Valhöll á Þingvöllum undir lok síðustu aldar. Á hótelinu er fyrirhugað að hafa veitingastað, kaffihús, norðurljósa ísbar, líkamsræktaraðstöðu, úrval af gufuböðum og sauna, jógasal og fleira. Að sögn Stefáns verða herbergin um 24 fermetrar að stærð með rúmgóðum baðherbergjum með baðkari. Stefnan er sett á skóflustungu þann 4. september nk. og formlegri opnun vorið 2018.

Stefán segir þetta framkvæmd upp á tæpa sex milljarða króna.

Aðgangur að nægu vatni hafi meðal annars ráðið miklu um staðsetningu. „En það skiptir okkur líka miklu máli að vinna vel með nærumhverfinu og hefur það verið lykilatriði hjá okkur að vinna verkefnið í samvinnu við sveitarfélagið. Við höfum fengið frábærar viðtökur og það er búið að vera virkilega skemmtilegt og jákvætt að vinna með sveitastjórninni og starfsfólki Hrunamannahrepps við undirbúningsvinnuna,“ segir Stefán Örn. Hann segir þá félaga jafnframt þurfa að reiða sig á bændur í nágrenninu. „Við viljum nýta allt það frábæra hráefni sem hægt er að nálgast beint frá býli á Flúðasvæðinu,“ bætir Stefán Örn við.

Sjá nánar í Sunnlenska í dag.

Fyrri greinEitt landsmet og sex HSK met
Næsta greinBanni aflétt á Seglbúðum