Lokunarsvæðið vegna eldgossins minnkað

Ríkislögreglustjórinn, lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra, lögreglustjórinn á Austurlandi og lögreglustjórinn á Suðurlandi hafa tekið ákvörðun um að breyta umfangi aðgangsstýrða svæðisins norðan Vatnajökuls vegna eldgossins í Holuhrauni.

Ákvörðunin er tekin í samráði við Veðurstofu Íslands, Vatnajökulsþjóðgarð, Umhverfisstofnun og Sóttvarnalækni.

Í lok janúar skilaði Veðurstofa Íslands nýju hættumati vegna gasdreifingar frá eldstöðinni í Holuhrauni. Forsendur fyrir nýju hættumati voru að dregið hafði úr eldgosinu frá því í október, árstíðabundin veðurskilyrði og gasmælingar sem gerðar eru reglulega við eldstöðvarnar. Líkan var keyrt miðað við veðurupplýsingar síðustu 10 ára fyrir mismunandi árstíðir og uppgefinn styrk af SO2. Hættumatið sem nú tekur gildi er miðað við veðurskilyrði fyrir febrúar til maí og verður því endurskoðað fyrir sumaraðstæður.

Gasmengun frá eldstöðinni getur enn verið mikil utan við lokunarsvæðið og eru því ytri mörk hættusvæðisins óbreytt frá fyrri ákvörðun. Enn er í gildi hættumat vegna flóða og öskufalls. Þeir sem hyggja á ferðalög innan hættusvæðisins að lokunarsvæðinu eru hvattir til þess að sýna ítrustu varfærni og vera með viðeigangi viðvörunar- og hlífðarbúnað. Auk þess er mikilvægt að kynna sér spár um dreifingu gass á vefsíðu Veðurstofunnar.

Líkön og mælingar frá því í vetur sýna að mikil mengun getur legið yfir Vatnajökul frá Flæðum, yfir Kverkfjöll og suður fyrir Norðlingalægð. Því mælast ofangreindir aðilar til þess að fólk fari ekki á gönguskíðum frá Grímsfjalli að Kverkfjöllum eða austur yfir jökulinn.

Unnið er að sérstöku hættumati vegna jökulhlaupa í Jökulsárgljúfrum og er því lokun þar enn í gildi. Auk þess er almennt hættumat vegna jarðhræringa í Bárðabungu og eldgossins í Holuhrauni í sífelldri endurskoðun og getur kallað á breytingar með litlum fyrirvara.

Fyrri greinSólarkaffi Vestfirðinga á Suðurlandi
Næsta greinÁrborg, Hamar og Stokkseyri saman í riðli