Lokun framlengd um sjö vikur á Skógaheiði

Umhverfisstofnun auglýsti lokun á Skógaheiði ofan Skógafoss 23. mars síðastliðinn í tvær vikur. Ljóst er að ekki er raunhæft að opna svæðið strax vegna viðkvæms ástands gróðurs og aurbleytu.

Mikil leðja myndast í gönguslóðanum nú þegar frost er að fara úr jörðu, slóðinn verður mjög háll og hætta á að fólk renni til og er því nær ómögulegt annað en að ganga meðfram slóðanum. Það gerir það að verkum að gróðursvörðurinn lætur undan og gönguslóðinn breikkar.

Umferð ferðamanna er mjög mikil á Skógaheiði en gönguleiðin sem tekur við af malarstíg við Fosstorfufoss þolir ekki þá umferð á þessum viðkvæma tíma þegar frost er að fara úr jörðu og gróður að vakan úr dvala.

Umrætt svæði er hluti af gönguleið um Fimmvörðuháls, en lokunarsvæðið hefst þar sem malarstígur endar, um 650 metra frá útsýnispalli ofan við Skógafoss. Vinna við lagfæringu á umræddri gönguleið á Skógaheiði hófst veturinn 2017. Lagfæring á fyrstu 650 metrum leiðarinnar er langt komin, en búið er að gera áætlun um lagfæringu á 3,5 km. Stefnt er á að ljúka við fyrst áfanga (fyrstu 650 metrana) á þessu ári en óljóst er með fjármögnun næsta áfanga.

Umhverfisstofnun hefur ákveðið að framlengja lokunina á Skógaheiði um sjö vikur að höfðu samráði við sveitafélagið Rangárþing eystra, ábúenda, hagsmunaaðila og með staðfestingu ráðherra samkvæmt lögum um náttúruvernd. Svæðið verður opnað um leið og aðstæður leyfa eða eigi síðar en 2. júní næstkomandi.

Stofnunin biður ferðaþjónustuaðila að miðla þessum upplýsingum til viðskiptavina og brýna mikilvægi þess að lokanir á náttúruverndarsvæðum séu virtar. Ferðaþjónustan og stofnanir sem fara með umsjón og rekstur náttúruverndarsvæða þurfa að standa saman vörð um náttúruna.

The Environment Agency has closed the area in Skógaheiði above the waterfall Skógafoss for nature protection. Due to thawing conditions the area has been damaged greatly by traffic and is prone to further damage. The area will remain closed until conditions change, no longer than until June 2nd. Entering the area is strictly forbidden. Help us to protect the nature and respect closing in nature conservation areas.

Fyrri greinKona í sjálfheldu í Ingólfsfjalli
Næsta greinÁrborg skoraði átta mörk