Loksins aftur hægt að selja pallbíla frá Bandaríkjunum

„Við höfum ekki getað flutt inn bíla frá Bandaríkjunum síðan 1. maí 2013 vegna reglugerðar frá Evrópusambandinu sem tók þá gildi en þar var farið fram á fimmtán atriði til mælinga hjá mælingastöð vottaðari af Evrópusambandinu.

Útblástur, hávaði í desibilum, þyngd öxla og framvegis”, segir Ingimar Baldvinsson hjá IB á Selfossi, sem er nú loksins farinn að geta selt þessa bíla á ný eftir að íslensk stjórnvöld samþykktu í vetur undanþágu við reglugerð Evrópusambandsins. Þá opnaðist aftur fyrir innflutning bíla frá Bandaríkjunum.

Ingimar afhenti fyrsta bílinn sem fyrirtækið flutti inn eftir reglugerðabreytinguna fyrir tveimur vikum og var það ríkulega útbúinn pallbíll af gerðinni Ford F-350 Platinum, sem fyrirtækið JAK ehf í Hafnarfirði keypti.

Annar samskonar bíll var afhentur síðar í sömu viku og þrír aðrir bílar eru að koma til landsins á næstu dögum. Ingimar hefur sjálfur unnið að því að fá skilning yfirvalda á því að umræddir bílar séu öruggir og standist allar kröfur, en á tímabili var nokkur andstaða við það innan embættiskerfisins.

Fyrri greinForeldrahópur á Selfossi
Næsta greinSex milljónir til stígagerðar