Loks opið í Lindinni allt árið

„Já, þetta er ánægjuleg þróun,” segir Baldur Öxdal, veitingamaður á Lindinni á Laugarvatni, en Lindin er nú opin allt árið um kring.

Er það í fyrsta sinn sem það gerist í bráðum 20 ára sögu veitingahússins. Baldur, sem tók við rekstri Lindarinnar fyrir tíu árum segir að bæði Íslendingar og erlendir ferðamenn sæki staðinn.

„Við höfum náð að fá stóra aðila í ferðaþjónustunni til nokkurskonar samstarfs við okkur, sem er grunnurinn að því að geta haldið staðnum opnum yfir veturinn líka,” segir Baldur og nefndir til dæmis Íslenska fjallaleiðsögumenn og Icelandair, sem bent hafa viðskiptavinum sínum á þann möguleika að stoppa á Laugarvatni og setjast niður á fallegum veitingastað í fallegu umhverfi.

„Við höfum hér sama opnunartíma og á sumrin, það er frá 12 til 22, en vissulega er miklu meira um að vera hér á sumrin,” segir Baldur en að jafnaði eru nú einn kokkur og einn þjónn á vakt, en fleiri sinna svo störfum þar þegar þurfa þykir að sögn Baldurs.

Á þeim tíu árum sem hann hefur verið veitingamaður á Lindinni segir hann að orðið hafi jákvæð viðhorfsbreyting til ferðaþjónustuaðila, ekki síst hjá sveitarstjórnaryfirvöldum, sem skynji orðið ótvírætt gildi þessarar atvinnugreinar á landsbyggðinni.