Lokatölur í Suðurkjördæmi

Sjálfstæðisflokkurinn tapaði rúmlega 6% fylgi í Suðurkjördæmi þannig að Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis, missti sitt þingsæti. Sjálfstæðisflokkurinn fékk þrjá menn kjörna nú.

Lokatölur í Suðurkjördæmi bárust klukkan rúmlega sex í morgun. Alls greiddu 28.910 atkvæði og var kjörsókn 79,96%, örlítið betri en í síðustu þingkosningum þegar 78,5% nýttu atkvæðisrétt sinn. Auðir seðlar voru 754 eða 2,6% og ógildir 106, eða 0,4%.

Framsóknarflokkurinn er næst stærstur með 18,65% og tvo þingmenn kjörna en flokkurinn fékk örlítið minna fylgi en í síðustu kosningum.

Miðflokkurinn kom sterkur inn í Suðurkjördæmi með 14,26% atkvæða og einn þingmann kjörinn.

Flokkur fólksins styrkti stöðu sína mikið frá síðustu kosningum og bætti fylgi sitt um rúm 5%, fékk 8,94% atkvæða og einn mann kjörin. Samfylkingin og Vinstri grænir bættu einnig við sig fylgi og fá einn þingmann hvor flokkur.

Píratar töpuðu rúmlega 5,7% af fylgi sínu og misstu sinn kjördæmakjörna þingmann, en miðað við nýjustu tölur er uppbótarþingmaður Sunnlendinga Pírati.

Björt framtíð missti nær allt fylgi sitt í kjördæminu og fylgistap Viðreisnar var svipað, og missti Viðreisn þingmann sinn í kjördæminu.

  1. Páll Magnússon, Sjálfstæðisflokki
  2. Sigurður Ingi Jóhannsson, Framsóknarflokki
  3. Birgir Þórarinsson, Miðflokknum
  4. Ásmundur Friðriksson, Sjálfstæðisflokki
  5. Ari Trausti Guðmundsson, Vinstri græn
  6. Oddný G. Harðardóttir, Samfylkingu
  7. Silja Dögg Gunnarsdóttir, Framsóknarflokki
  8. Karl Gauti Hjaltason, Flokki fólksins
  9. Vilhjálmur Árnason, Sjálfstæðisflokki
  10. Smári McCarthy, Pírötum
UPPFÆRT KL. 9:00

Fyrri greinRjúpnaskytturnar fundnar
Næsta greinGrænmetislasagne sem kemur öllum í gott skap