Lokanir hjá Árborg vegna smits

Gámasvæði Árborgar. Ljósmynd/Árborg

Samkvæmt heimildum sunnlenska.is eru gámasvæði Árborgar og starfsstöð sveitarfélagsins á Austurvegi 67 lokuð eftir að starfsmaður gámasvæðisins greindist með COVID-19 í gærkvöldi.

Viðbragðsstjórn Árborgar brást hratt við og ákvað að loka gámasvæðinu í dag og á morgun og starfsstöðinni við Austurveg 67 í dag á meðan unnið er að smitrakningu.

Íbúar Árborgar eru hvattir til að viðhafa persónulegar smitvarnir og gæta vel að tveggja metra reglunni, í samræmi við tilmæli yfirvalda.

UPPFÆRT KL. 13:28: Birt hefur verið tilkynning um lokunina á heimasíðu Árborgar og þar kemur fram að lokunarráðstafanirnar séu ítarlegri en lög gera ráð fyrir. Sveitarfélagið vill með þessum varúðarráðstöfunum gefa rakningarteymi almannavarna betra tækifæri til að greina stöðuna. Almannavarnir á Suðurlandi voru jafnframt upplýstar um málið. Íslenska gámafélagið við Hrísmýri mun leysa gámasvæðið af hólmi í dag og á morgun.

Fyrri greinNokkur COVID-smit á Hótel Rangá
Næsta greinBoða rekstaraðila til viðræðna um lágvöruverslun á Flúðum