Lokanir vegna veðurs

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ölfus
Ákveðið hefur verið að allt skólahald í Þorlákshöfn falli niður á morgun, föstudaginn 14. febrúar, í ljósi þess að Almannavarnir hafa lýst yfir óvissustigi með rauðum veðurviðvörunum á Suðurlandi. Þetta á við bæði um grunnskóla og leikskóla.

Hveragerði
Öll skólastarfsemi fellur niður á morgun. Í samráði við almannvarnir hefur verið ákveðið að á morgun föstudag verða leikskólar lokaðir til kl.13 að því gefnu að veður hafi þá gengið niður. Grunnskólinn verður lokaður allan daginn og engin starfsemi í íþróttamannvirkjum.

Árborg
Ákveðið hefur verið að loka öllum stofnunum Sveitarfélagsins Árborgar á morgun, föstudaginn 14. febrúar. Þetta á við um allt skólahald, frístunda- og íþróttastarf, gámasvæði, bókasöfn, skrifstofur sveitarfélagsins og félagsþjónustu. Sérstakar ráðstafanir verða þó gerðar vegna heimila með sólarhringsþjónustu. Íbúar eru hvattir til að huga að lausamunum og gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir mögulegt foktjón. Ef þörf er á verður hugað að snjómokstri þegar veðrið er gengið niður. Íbúar eru hvattir til að fylgjast vel með fréttum og tilkynningum af veðri.

Sundhöll Selfoss og World Class verður lokað til kl. 15:00. Opnunartíminn verður skoðaður frekar í hádeginu á föstudag, hvort opnað verði fyrr eða síðar.

Vinnumálastofnun Suðurlandi verður einnig lokuð á föstudag. 

Flóahreppur
Allar starfsstöðvar Flóahrepps verða lokaðar á morgun föstudag. Einnig er bent á að mikilvægi þess að huga að því að ganga frá lausum munum og vera ekki á ferðinni á meðan veðrið gengur yfir.

Grímsnes- og Grafningshreppur
Allt starf á vegum Grímsnes- og Grafningshrepps fellur niður föstudaginn 14. febrúar.
Þetta á við um grunnskóla, leikskóla, og frístundastarf; einnig íþróttamannvirki, mötuneyti, gámasvæði og skrifstofur sveitarfélagsins. Íbúar eru hvattir til að huga að lausamunum og gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir mögulegt foktjón, eftir því sem unnt er. Hugað verður að snjómokstri þegar veðrið gengur niður.

Bláskógabyggð
Allar stofnanir Bláskógabyggðar verða lokaðar á morgun, föstudag.
Þetta á við um grunnskóla, leikskóla, og frístundastarf; einnig íþróttamannvirki, mötuneyti, gámasvæði og skrifstofur sveitarfélagsins. Íbúar eru hvattir til að huga að lausamunum og gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir mögulegt foktjón, eftir því sem unnt er. Hugað verður að snjómokstri þegar veðrið gengur niður.

Hrunamannahreppur
Flúðaskóli og leikskólinn Undraland verða lokaðir á föstudag vegna rauðrar veðurviðvörunnar og staðan tekin á íþróttahúsinu eftir hádegi.

Skeiða- og Gnúpverjahreppur
Ákveðið hefur verið að loka leikskólanum í Brautarholti og Þjórsárskóla föstudaginn 14. febrúar. Íbúar eru beðnir um að gæta að öllu lauslegu og jafnvel því sem fólki finnst vera öflugt og koma því í skjól fyrir austanáttinni. Hún getur verið strembin oft á tíðum. Vonandi verður ekki rafmagnslaust en …ef svo verður, þá er gott að hafa vasaljósin, höfuðljósin eða kertin við hendina.

Rangárþing ytra
Allt skólahald fellur niður í leik- og grunnskóla á Hellu og Laugalandi. Grunnskólinn á Hellu, Laugalandsskóli, Leikskólinn á Laugalandi og Leikskólinn Heklukot verða þar af leiðandi allir lokaðir. Íþróttamiðstöðvarnar á Hellu og Laugalandi verða lokaðar fyrir hádegi og allar líkur eru til að önnur þjónusta sveitarfélagsins verði skert.

Rangárþing eystra
Skólahald fellur niður í Leikskólanum Örk og Hvolsskóla. Með tilliti til veðurspár í dag, fimmtudag, og mikils álags á Rangárveitu hefur öllum sundlaugum á veitusvæði Rangárveita verið lokað. Líkamsræktin í íþróttamiðstöðinni á Hvolsvelli er opin.

Mýrdalshreppur
Kennsla fellur niður í Víkurskóla. Þetta á við um allar bekkjardeildir. Dægradvöl skólans fyrir nemendur í 1.-4. bekk og forskóla, sem nauðsynlega þurfa vistun, verður opin frá klukkan 8. Foreldrar eru beðnir um að tryggja að þeir hitti starfsmenn Dægradvalar í fyrramálið (föstudag) þegar og ef foreldrar mæta með sín börn.

Pósturinn
Á morgun, föstudaginn 14. febrúar, verður engin starfsemi hjá Póstinum á þeim svæðum þar sem rauð veðurviðvörun er í gildi. Á öðrum svæðum þar sem appelsínugul viðvörun er í gildi verða aðstæður metnar í fyrramálið en búast má við röskun á þjónustu um allt land á morgun. Ef veður og aðstæður batna til muna verður brugðist við því á viðeigandi hátt.