Lokað fyrir heimsóknir á Sólvöllum, Kirkjuhvoli, Lundi og Hjallatúni

Sólvellir á Eyrarbakka. sunnlenska.is/Björn Ingi Bjarnason

Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Sólvöllum á Eyrarbakka, hjúkrunarheimilinu Kirkjuhvoli á Hvolsvelli og Lundi á Hellu hefur öllum verið lokað fyrir heimsóknum ættingja og annarra gesta frá og með deginum í gær, þar til annað verður formlega tilkynnt.

Í dag tilkynntu svo stjórnendur á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Hjallatúni í Vík um lokun fyrir heimsóknir frá og með deginum í dag.

Er þetta gert að höfðu samráði við Sóttvarnarlækni og Landlækni eftir að Neyðarstigi almannavarna var lýst yfir í gær vegna COVID-19. Hjúkrunarheimilin eru hér fylgja eindregnum tilmælum þessara aðila sem eru í framvarðasveit Almannavarna Íslands. 

Tilkynningar heimilanna eru nokkuð samhljóða en í þeim kemur fram að stjórnum og stjórnendum þykir mjög leitt að þurfa að taka svo stóra ákvörðun en þetta er gert með velferð íbúanna í húfi og eru fólk beðið um að sýna þessari ákvörðun virðingu og skilning. 

„Það er ljóst að það getur reynst íbúa mjög erfitt að fá ekki heimsóknir frá ættingjum sínum og á sama hátt getur það reynst ættingjum íbúans mjög erfitt að heimsækja hann ekki. Það er samt nauðsynlegt að grípa til þessarra ráðstafana til að koma í veg fyrir að íbúi veikist af veirunni og eins geta smit borist frá ættingjum eins íbúa til annars íbúa,“ segir meðal annars í tilkynningum hjúkrunarheimilanna.

Fyrri greinÁrsæll sigraði í Stóru upplestrarkeppninni
Næsta greinLeiðbeiningar fyrir einstaklinga með áhættuþætti vegna COVID-19