Lokað fyrir ferðir í íshella

Vík í Mýrdal og Mýrdalsjökull. Ljósmynd/Mats Wibe Lund

Lögreglan á Suðurlandi hefur ákveðið að loka tímabundið fyrir ferðir í íshella við Kötlujökul vegna aukinnar jarðskjálftavirkni í Mýrdalsjökli.

Hættulegt getur verið að vera á ferðinni vegna þessa ástands enda skammur viðbragðstími fyrir þann sem þar er á ferð ef hleypur úr katli. Þá þarf að gæta sérstaklega að mögulegri gasmengun, einkum í dældum og lokuðum rýmum eins og íshellum.

Síðan í gær hefur mælst aukin skjálftavirkni í Mýrdalsjökli. Í morgun kl. 7:54 var skjálfti af stærð 3,0 og kl. 12:50 voru komnir um 15 skjálftar, sá stærsti var af stærðinni 3,8 kl. 11:50. Skjálftarnir eru allir staðsettir nærri sigkötlum 10 og 11 í austanverðri Kötluöskju.

Ekki er hægt að útiloka að hlaup muni hefjast í Múlakvísl og er varað við ferðum við ána og sérstaklega upptök árinnar, m.a. vegna gasmengunnar.

Fyrri greinSelfoss tapaði fyrir norðan
Næsta greinHættulegar aðstæður undir Eyjafjöllum