Lokað milli Lómagnúps og Jökulsárlóns

Vegagerðin er nú að loka Suðurlandsvegi frá Lómagnúp í vestri að Jökulsárlóni í austri. Þar er nú mikil hálka og hvasst.

Vindhviður á mæli við Sandfell í Öræfum eru yfir 30 m/sek og ekkert ferðaveður þar.

Slysavarnafélagið Landsbjörg hvetur ferðafólk til að fylgjast vel með veðurspá og halda kyrru fyrir frekar en leggja af stað þar sem spáð er slæmu veðri.

Reikna má með hviðum suðaustanlands allt að 35-45 m/s frá kl. 11-12 og fram undir kvöld frá Lómagnúpi og austur fyrir Höfn. Austalands verður hríðarveður og 15-20 m/s frá því upp úr hádegi. Mikið snjóar og skyggni víða lítið, en á láglendi neðan 100-200 hlánar þegar líður á daginn. Síðdegis fer veður einnig versnandi norðaustanlands og frá því um 16-18 er reiknað með einhverri ofankomu og skafrenningi í flestum landshlutum. Ekki verður þó hvasst suðvestan- og vestanlands.

Það er hálka eða snjóþekja á flestum vegum á Suðurlandi og eitthvað um skafrenning. Þæfingsfærð er í Grafningi. Hálka og stórhríð er á Reynisfjalli.