Lögregluvakt verður við Reynisfjöru

Innanríkisráðherra og iðnaðar- og viðskiptaráðherra, í samráði við lögregluna á Suðurlandi, hafa í ljósi endurtekinna atburða og nú síðast hörmulegs banaslyss í dag við Reynisfjöru ákveðið að frá og með morgundeginum verði þar lögregluvakt.

Þá verði gerð áhættugreining á svæðinu í samræmi við tillögur nefndar sem innanríkisráðherra skipaði á síðasta ári til að gera tillögur um öryggi ferðamanna.

Í kjölfar niðurstöðu hennar verður tekin ákvörðun um frekari aðgerðir til að tryggja öryggi ferðamanna sem fara um svæðið. Þá er fyrirhugað að gera sambærilega áhættugreiningu fyrir aðra fjölsótta ferðamannastaði.

Undanfarnar vikur hefur á vettvangi Stjórnstöðvar ferðamála verið unnið að tillögum að aðgerðum sem nauðsynlegt er að grípa til þegar á þessu ári og lúta almennt að öryggi ferðamanna. Verða þær m.a. ræddar á næsta fundi Stjórnstöðvarinnar sem verður í lok febrúar.

Fyrri greinStyrmir Dan rauf tveggja metra múrinn og setti HSK met
Næsta greinStóð á steini þegar aldan greip hann