Lögreglumönnum fækkar í Árnessýslu

Lögreglumönnum í Árnessýslu hefur verið fækkað um fjóra vegna niðurskurðar. Einungis fjórir lögreglumenn eru nú á vakt að næturlagi á virkum dögum í umdæminu, en voru fimm áður.

Umdæmi sýslumannsins á Selfossi er tæplega níu þúsund ferkílómetrar að stærð, nær að vestan frá Sandskeiði austur að Þjórsá og upp undir Langjökul og Hofsjökul. Lögreglumenn umdæmisins voru 28 talsins á síðasta ári en hefur nú verið fækkað um fjóra vegna niðurskurðar á fjárlögum. Þetta þýðir að einungis fjórir lögreglumenn eru nú á vakt að næturlagi á virkum dögum í umdæminu, og ekki er hægt að bæta lögreglumönnum á vaktina þurfi einhver þeirra frá að hverfa sökum veikinda.

Á vef RÚV segist Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi, hafa áhyggjur af þróun mála. Farið sé að reyna verulega á þá lögreglumenn sem gangi vaktir og alla þá sem starfi í lögreglunni Það sé ekki sami slagkraftur og á undanförnum árum.

Ólafur segir að umdæmið myndi illa þola frekari niðurskurð og fækkun lögreglumanna. Lögreglumenn hafi sent frá sér ályktanir og lýst yfir áhyggjum, sem sé eðlilegt, enda standi þeir í framlínunni og þekki best hvað við sé að eiga.

Fyrri greinRagnheiður ráðin félagsmálastjóri
Næsta greinSkjálftar undir jökli