Lögreglumaðurinn sem fór í hundana

Jóhanna og Hanzi í heimsókn á skrifstofu Mannvits.

Nýverið tók til starfa mygluleitahundur á Íslandi, sá fyrsti hér á landi. Sunnlendingurinn Jóhanna Þorbjörg Magnúsdóttir sá um þjálfunina á hundinum, sem er þýskur fjárhundur og ber nafnið Hanzi.

Jóhanna hefur mikla reynslu af því að þjálfa hunda fyrir sérhæfð verkefni eins og þetta.

Menntaður lögreglumaður
„Ég byrjaði að þjálfa leitarhunda í björgunarsveitunum árið 2005. Eftir það var ekki aftur snúið. Ég þjálfaði upp Morris sem var border collie og stóðum við vaktina yfir margra ára tímabil og sinntum flestum þeim leitarbeiðnum sem bárust á sex ára tímabili. Morris eða Mó eins og hann var alltaf kallaður hefur nú kvatt okkur, saddur lífdaga að verða 13 ára gamall,“ segir Jóhanna í samtali við sunnlenska.is.

„Ég er einnig menntaður lögreglumaður og hef starfað fyrir lögreglustjórann á Suðurlandi með hléum frá árinu 2007. Þar slokknaði ekki á áhuganum að hjálpa fólki og sinna útköllum en meðfram starfinu sinnti ég alltaf hundaþjálfun. Árið 2014 fór ég svo ásamt manninum mínum til Texas í Bandaríkjunum þar sem ég tók diplómu í hundaþjálfun og útskrifaðist sem „canine trainer and behavior specialist“ eða sérfræðingur í hegðun hunda. Ég fór einnig á vegum Frontex, sem er landamæragæsla Evrópusambandsins, í frekara nám í efnaleit og flutti erlendis á síðasta ári þar sem ég sinnti því námi eingöngu,“ segir Jóhanna.

Alltaf haft mikinn áhuga á hundaþjálfun
Í dag hefur Jóhanna sagt skilið við lögregluna og sinnir nú hundaþjálfun eingöngu. „Ég er bæði með námskeið og einkatíma fyrir fólk en samhliða þessu er ég með hundinn Hanz sem er sérþjálfaður í að finna myglu í húsum og rek einangrunarstöðina Mósel,“ segir Jóhanna.

Jóhanna segir að hún hafi alltaf haft mikinn áhuga á hundaþjálfun og vinnuhundum. „Hundar sem notaðir eru í hverskyns þjónustu hafa átt minn hug allan frá því ég man eftir mér. Það hefur verið ansi grýtt leiðin að komast á þann stað sem ég er í dag að hafa atvinnu af hundaþjálfun en ég myndi ekki vilja skipta því út fyrir neitt.“

Gaman að hjálpa fólki
„Það að þjálfa hund til að finna myglu í húsnæði hjá fólki finnst mér vera einn anginn af björgunarsveita- og lögreglukellingunni í mér. Mér finnst gaman að hjálpa fólki og hlakka ég mikið til að aðstoða fólk í að finna leynda myglu í húsnæði,“ segir Jóhanna.

Aðspurð hvort hún hafi aldrei misst þolinmæðina við hundaþjálfunina segir Jóhanna svo ekki vera. „Ótrúlegt en satt að þá hef ég aldrei misst þolinmæðina fyrir hundum! Sem er meira en ótrúlegt því ég er ekki fædd með þolinmæði. Ég get hinsegar auðveldlega misst þolinmæðina yfir sjálfri mér þegar ég geri villur eða hefði átt að úthugsa einhverja æfingu betur – það gerist oft og reglulega en það er nefnilega þannig að ef hundurinn er ekki að gera rétt og skilur ekki æfinguna að þá ert það þú sem ert að klikka – ekki hundurinn. Mín reynsla er sú að þeir reyna alltaf að gera sitt besta!“

Frábær vinnufélagi
Sem fyrr segir er Hanzi fyrsti mygluleitarhundur landsins. Hann hefur lokið prófi frá BSS sem eru þýsk samtök um myglu og eru þýska umhverfisstofnunin hluti af þeirri starfsemi.

„Það hefur verið ljúft að þjálfa Hanza, hann lítur út fyrir að vera hættulegur en er ein blíðasta skepna sem ég hef kynnst, hann er ljúfur og góður og er í miklu uppáhaldi hjá börnunum okkar. En þó hann sé blíður og góður að þá er hann háttstemmdur vinnuhundur sem þarf alltaf að vera að vinna. Hann getur leitað tímunum saman og hættir aldrei fyrr en ég bið hann um það. Hann er ofsalega sannur og frábær vinnufélagi,“ segir Jóhanna.

Þétt bókaður
„Myguleitarhundar hafa verið starfandi víðsvegar um Evrópu í mörg ár og erum við að fylgja þeirra úttektarreglum og rannsóknum. Við vinnum einnig náið með verkfræðingum Mannvits og eins Náttúrufræðistofnun Norðurlands. Hanza er kennt að finna algengustu og hættulegustu myglutegundirnar,“ segir Jóhanna.

 „Hanzi er þétt bókaður og verður gaman að takast á við komandi verkefni. Ef fólk vill fá hann í heimsókn að þá er best að hafa samband við Mannvit og bóka skoðun,“ segir Jóhanna að lokum.

 

Fyrri greinLeitað að ökumönnum í tveimur tjónum
Næsta greinFjórir með illa frágenginn farm