Lögreglan varar við svikahröppum á netinu

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Lögreglan á Suðurlandi vill vara fólk við einstaklingum sem beita blekkingum við sölu á ýmis konar munum á netinu.

Lögreglan hefur fengið inn á sitt borð þónokkur mál sem tengjast verslun einstaklinga á milli í gegnum vefmiðla. Algeng birtingamynd blekkinganna er að kaupandi greiðir fyrir vöru og seljandi ætlar að senda eða afhenda vöruna en stendur ekki við það loforð og lokar aðgangi eða blokkar þann sem keypti vöruna.

Lögregla hvetur fólk til þess að versla með gagnrýnu hugarfari og greiða ekki fyrir vöru fyrr en við afhendingu.

Í tilkynningu frá lögreglunni segir að hér sé fyrst og fremst varað við verslun á sölusíðum þar sem einstaklingar auglýsa varning til sölu, en ekki gagnvart verslun á viðurkenndum og þekktum vefverslunarsíðum verslana.

Fyrri greinErfitt hjá drengjunum gegn fullvöxnum Kríum
Næsta greinBryndís fékk þakkarviðurkenningu FKA