Lögreglan rannsakar ofbeldismyndbönd barna á Selfossi

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Í liðinni viku vann lögreglan á Suðurlandi í nánu samráði við barnavernd Sveitarfélagsins Árborgar vegna myndskeiða sem fundust er sýna ofbeldi barna gegn hverju öðru á Selfossi.

Í dagbók lögreglunnar segir að vísbendingar bendi til þess að nokkuð sé um að boðað sé til átaka, þau tekin upp og síðan deilt á samfélagsmiðlum eða á netinu á einstökum síðum.

„Aðilar þeirra mála sem hér komu við sögu voru fengnir á lögreglustöðina og rætt við þá ásamt foreldrum þeirra og barnavernd. Viðkomandi hafa ekki náð sakhæfisaldri en það dregur ekki úr alvarleika málsins,“ segir í dagbókinni.

Lögreglan hvetur foreldra til að taka samtal við börn sín og gera þeim grein fyrir alvarleika svona mála.

Fyrri greinÞurfti aðstoð eftir nótt í snjóhúsi
Næsta greinEinnig mygla í skólanum á Stokkseyri