Lögreglan leitaði að erlendum kindahrelli

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Lögreglan á Suðurlandi fékk í morgun tilkynningu frá vegfarenda er átti leið um Suðurlandsveg skammt frá Vík í Mýrdal þess efnis að erlendur ferðamaður á bílaleigubifreið væri þar að hrella lambfé á túni skammt frá þjóðvegi 1.

Fór lögregla á staðinn og kom þá í ljós að ekki var um að ræða erlendan kindahrelli, heldur bónda frá nærliggjandi sveitabæ á fólksbifreið heimilisins. Hann kvaðst í samtali við lögreglu hafa verið að elta undanvilling.

Mál þetta endaði því á besta veg þar sem umrætt lamb komst aftur til móður sinnar.

Lögreglan á Suðurlandi vill þó koma á framfæri þökkum til umrædds vegfaranda og hvetur vegfarendur að tilkynna áfram verði þeir varir við utanvegaakstur sem er orðið að talsverðu vandamáli í umdæminu.

Fyrri greinRisaeðlur í sumarlestri
Næsta greinÆgismenn skoruðu sautján mörk