Lögreglan kyrrsetti dráttarbíl

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Lögreglan á Suðurlandi kyrrsetti dráttarbifreið með 5 tonna beltagröfu á eftirvagni í uppsveitum Árnessýslu á miðvikudag í síðustu viku.

Grafan hafði ekki verið fest á eftirvagninn og var ökumanninum gert að ganga frá því áður en hann fékk að halda för sinni áfram.

Lögreglan skoðaði fimmtán önnur stór ökutæki í svokallaðri vegaskoðun og reyndist ástand þeirra almennt gott. Í einu tilfelli var gerð athugasemd við ljósabúnað og á öðrum bíl var gerð athugasemd við ástand eins hjólbarða.