Lögreglan í hálendiseftirliti

Í síðustu viku komu lögreglumenn á Suðurlandi að 259 verkefnum af margs konar toga. Meðal annars fór lögreglan í hálendiseftirlit um Dómadalsleið í Landmannalaugar og á Eyjafjallajökul.

Lögreglumenn á Hvolsvelli fóru í hálendiseftirlitið en á þessum slóðum er jafnan er talsverð umferð breyttra jeppa og snjósleða. Lögreglumenn höfðu tal af fólki á ferðum sínum um hálendið og var mat þeirra að ástand ökumanna og búnaður þeirra hafi verið gott.

Þrátt fyrir góðan búnað ferðamanna á fjöllum verða enga síður slys og óhöpp. Eitt slíkt var tilkynnt uppúr hádegi í gær þegar karlmaður á fjórhjóli ók framaf snjóhengju við Jökuldali á Fjallabaksleið nyrðri. Í tilkynningunni fólst að um alvarlegt slys væri að ræða lögregla ásamt Björgunarsveitarmenn Dagrenningar og Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu fóru á slysstað. Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar var kölluð út og flaug á vettvang.

Hinn slasaði var fluttur með þyrlunni á Slysadeild Landspítalans í Fossvogi. Hann hlaut mikla innvortis áverka en er ekki í lífshættu.

Fyrri greinÖll tilboð hátt yfir áætlun
Næsta greinÁ ótryggðum bíl á fölskum númerum