Lögreglan hvetur ferðamenn til að sýna þolinmæði

Búist er við um 15 þúsund gestum á unglingalandsmót UMFÍ á Selfossi um helgina og á bilinu 14 til 15 þúsund gestum á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.

“Þolinmæði er lykilatriði,” segir Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi, um þann umferðarþunga sem búist er við í kringum verslunarmannahelgina.

Ólafur Helgi segir að lögreglan verði með auka mannskap alla dagana til að halda uppi umferðareftirliti. Auk Selfoss og Vestmannaeyja er búist við fjölmenni á Flúðum og Laugalandi og á fleiri stöðum í héraðinu.

Lögreglan á Selfossi verður með umferðareftirlit í samstarfi við þyrlusveit Landhelgisgæslunnar á annatímanum en búist er við mestri umferð til og frá hátíðarsvæðunum á föstudag og mánudag. Mótið á Selfossi hefst á föstudag og því má einnig búast við þungri umferð á fimmtudag og hafa gestir unglingalandsmótsins verið hvattir til að aka um Þrengsli og Suðurstrandarveg til að létta umferð á Hellisheiði og Ölfusárbrú.

Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu