Lögreglan hemlaprófaði vörubíla við Skeiðavegamót

Lögreglan hemlaprófar ökutæki við Skeiðavegamót. Ljósmynd/Lögreglan á Suðurland

Lögreglumenn sem sinna sérstöku umferðareftirliti á Suðurlandi annarsvegar og á Vesturlandi hinsvegar komu saman til vinnu á Selfossi síðastliðinn þriðjudag til að sinna vegaskoðun stórra ökutækja.

Við eftirlitið var notaður hemlaprófari sem þessi embætti ásamt embætti lögreglustjórans á Norðurlandi eystra keyptu fyrir nokkru síðan. Hann var settur upp á plani við Skeiðavegamót og unnið að verkefninu þar.

Tíu ökutæki voru skoðuð og voru gerðar athugasemdir við tvö þeirra þar sem hemlakraftar reyndust ójafnir og aflögun á hjólaskálum yfir mörkum. Auk þessa voru gerðar athugasemdir við ljósabúnað einnar bifreiðar og brotnar framrúður í öðrum tveimur.

Í tilkynningu frá lögreglunni segir að ef niðurstaða hemlaprófunar gefi tilefni til athugasemda sé ökutækið boðað til skoðunar í viðurkenndri skoðunarstöð og til þess gefinn ákveðinn frestur. Niðurstöður þessarar vinnu lögreglunnar gefi tilefni til frekari aðgerða og mega ökumenn eiga von á því að ökutæki þeirra verði skoðuð með þessum hætti á næstu mánuðum.

Fyrri greinFern umhverfisverðlaun veitt í Árborg
Næsta greinTel mig vera ættleiddan frá suðrænni slóðum en Ölfusinu