Lögreglan gómaði mótorhjólamann á flótta

Ökumaður torfæruhjóls olli usla í miðbæ Selfoss síðdegis í dag. Lögreglan reyndi að stöðva manninn sem gaf þá allt í botn og brunaði í burtu.

Lögreglumenn urðu varir við hjólið við almennt umferðareftirlit á Eyravegi og veittu því athygli að það var óskráð. Maðurinn sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu heldur gaf allt í botn og brunaði eftir Eyraveginum í gegnum hringtorgið við Ölfusárbrú og þaðan út fyrir á að Steypustöðinni og eftir krókaleið inn að skógræktarsvæðinu í Hellisskógi. Þar endaði eftirförin þar sem maðurinn stöðvaði hjólið og lögreglumenn náðu að góma hann.

Í millitíðinni hafði annar lögreglubíll verið kallaður til verkefnisins og segir varðstjóri hjá lögreglunni að mjög vel hafi verið staðið að eftirförinni af hálfu lögreglumannanna. Ekki er enn ljóst á hve miklum hraða hjólið var þegar leikar stóðu hæst.

Ökumaðurinn reyndist vera karlmaður á fertugsaldri og var hann færður á lögreglustöðina á Selfossi til yfirheyrslu. Hann hafði ekki réttindi til að aka hjólinu sem var óskráð og þar af leiðandi ótryggt. Málið er í rannsókn hjá lögreglunni á Selfossi.

Fyrri greinAlmenningur svipist um eftir bifreiðinni
Næsta greinSápustöðin opnuð á Selfossi