Lögreglan flutti mann á sjúkrahús

Fremur fá stór verkefni komu upp í umdæmi lögreglustjórans á Suðurlandi í síðustu viku. Þess í stað gafst lögreglumönnum færi á að vinna úr uppsöfnuðum verkefnum, stunda aukið eftirlit og sinna birtingum.

Samt sem áður er það ekki svo að ekki hafi verið tilkynnt um brot á lögum og reglum. Má þar nefna að númeraplötum var stolið af bifreið sem stóð við Krossanesbryggju á Höfn í Hornafirði.

Á föstudagskvöld datt maður í hálku í Hveragerði og var talið að hann hefði ökklabrotnað. Þar sem engin sjúkrabifreið var tiltæk á þeirri stundu sáu lögreglumenn um að flytja manninn á heilsugæslustöðina á Selfossi.

Tveir ökumenn voru kærðir vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna og einn fyrir ölvunarakstur.

Fyrri greinMílan tapaði fyrir toppliðinu
Næsta greinLýst eftir vitnum í Njálsbúð