Lögregla rannsakar hvarf á köttum

Lögreglan á Selfossi hefur til rannsóknar kæru um brottnám kattar á Selfossi sem fannst síðan heill á húfi í Ölfusinu. Samkvæmt heimildum sunnlenska.is hafa tveir einstaklingar á Selfossi stundað það að veiða ketti og skilja þá síðan eftir fyrir utan bæjarmörkin.

Þorgrímur Óli Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, staðfesti í samtali við sunnlenska.is að mál af þessu tagi hefði verið kært til lögreglu. Sá köttur hafi verið týndur í tvær vikur en fannst síðan heill á húfi við Kjarr í Ölfusi. Þorgrímur segir að grunur leiki á að kötturinn hafi verið veiddur í minkagildru og er málið rannsakað sem brot á lögum um dýravernd.

Sunnlenska.is hefur fengið staðfest annað tilvik þar sem kettlingur til heimilis í austurbæ Selfoss hvarf, en fannst síðan dauður við Kögunarhól í Ölfusi þar sem ekið hafði verið á hann. Eigendur kettlingsins höfðu samband við mann sem grunaður er um verknaðinn og viðurkenndi hann fúslega fyrir þeim að hafa veitt köttinn og ekið honum út fyrir bæinn.

Fyrri greinÞrjátíu daga fangelsi fyrir innbrot og þjófnað úr sumarhúsum
Næsta greinFjögurra mínútna áhlaup skilaði sigri gestanna