Lögregla með tilmæli vegna sýnatöku á Selfossi

Löng röð í sýnatöku á Selfossi síðastliðinn laugardag. Ljósmynd/Magnús Ninni Reykdalsson

Samkvæmt upplýsingum frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands má búast við talsverðum fjölda einstaklinga sem eiga að koma í sýnatöku vegna COVID-19, í bílakjallara Kjarnans á Selfossi í dag.

Í gær var algjört öngþveiti í kringum sýnatökutöðina og náði umferðarteppan upp á Eyraveg, á Tryggvatorg og yfir Ölfusárbrú, alveg upp á Arnberg.

Til þess að koma í veg fyrir umferðarteppu á nærliggjandi umferðaræðum biður lögreglan á Suðurlandi þá sem eiga að mæta í sýnatöku að aka inn Þóristún, en ekki Kirkjuveg. Fólk er einnig beðið um að mæta ekki löngu fyrir þann tíma sem því var úthlutað í sýnatöku.

Tvöföld bílaröð verður eftir Selfossvegi meðfram Ölfusá að Kjarnanum en einföld röð eftir Þóristúni og þar sem þetta verður annasamur dagur í sýnatökum þá mun þetta taka lengri tíma en venjulega vegna umferðarinnar. Lögregla mun eftir föngum reyna að liðka fyrir umferð í kringum sýnatökustað og biður fólk um að sýna tillitsemi og vera þolinmótt.

Fyrri greinVel heppnað Þollóween – sjáðu myndirnar
Næsta greinTvö hestaslys í vikunni