Lögregla beitti piparúða á slagsmálahunda

Aðfaranótt laugardags var kallað eftir aðstoð lögreglu að skemmtistaðnum Café Rose í Hveragerði vegna slagsmála þar fyrir utan.

Þegar lögreglumenn komu á staðinn voru þar menn í átökum og kallaði lögreglan eftir frekari aðstoð. Beita varð piparúða til að koma skikki á mannskapinn.

Einn maðurinn lét sér þó ekki segjast og réðist á mann og sló niður og síðan lét hann hnefahögg dynja lögreglubifreið sem dældaðist við atganginn. Maðurinn var handtekinn og færður í fangageymslu. Hann var síðan yfirheyrður þegar hann hafði róast.

Maðurinn verður kærður fyrir líkamsárás, eignaspjöll og ölvun á almannafæri. Á síðustu misserum hefur maður þessi komið nokkuð við sögu vegna líkamsárása.

Fyrri grein„Spurning um mannréttindi“
Næsta greinJólagjöf stolið í sundhöllinni