Löggæslustörfin krefjast tveggja varaoddvita

Sveitarstjórn Skaftárhrepps hefur kosið sér tvo varaoddvita vegna atvinnu oddvitans og varaoddvitans sem báðir eru lögreglumenn.

Guðmundur Ingi Ingason, oddviti og Þorsteinn M. Kristinsson, varaoddviti, eru einu starfandi lögreglumennirnir á svæðinu. Starfsins vegna geta komið upp aðstæður þar sem þeir þurfa að sinna öðrum málefnum, segir Eygló Kristjánsdóttir, sveitarstjóri Skaftárhrepps.

Sveitarstjórn ákvað því að nýta sér ákvæði nýrra sveitarstjórnarlaga og kjósa tvo varaoddvita. Þorsteinn er fyrsti varaoddviti og Jóhannes Gissurarson annar varaoddviti.

Nýja fyrirkomulagið gildir fram að næsta oddvitakjöri í júní á þessu ári.