Lögðu hald á sex kíló af hassi

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Héraðsdómur Suðurlands úrskurðaði í dag, að kröfu lögreglustjórans á Suðurlandi, íslenskan karlmann fæddan 1997 í farbann til kl. 16:00 19. desember næstkomandi.

Maðurinn var handtekinn að kvöldi 7. nóvember síðastliðinn þar sem hann var einn á vesturleið á Suðurlandsvegi um Mýrdalssand á vanbúinni bifreið.

Athugull lögreglumaður áttaði sig fljótlega á því að fleira vantaði uppá því maðurinn reyndist próflaus og undir áhrifum fíkniefna.

Við leit í bifreiðinni fundust tæp 6 kíló af hassi sem maðurinn kannaðist við að vera að flytja en vildi að öðru leiti ekki skýra tilvist þeirra.

Maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald sem átti að renna út kl. 16:00 á morgun en ekki þótti tilefni til að halda honum lengur vegna rannsóknarinnar og var hann því látinn laus í dag en úrskurðaður í farbann eins og áður sagði.

Áfram er unnið að rannsókn málsins, m.a. um uppruna efnanna og mun lögreglan ekki veita frekari upplýsingar um gang hennar að sinni.

Fyrri greinFrábær barna og fjölskyldusýning
Næsta greinÁlfrún bætti Íslandsmetið í sleggju