Lofthreinsistöð orðinn hluti hefðbundins reksturs

Í gær lauk formlega byggingu lofthreinsistöðvar við Hellisheiðarvirkjun þegar Guðmundur Hagalín Guðmundsson, rekstrarstjóri virkjana Orku náttúrunnar, tók við umsjón og rekstri stöðvarinnar.

Tilraunarekstur lofthreinsistöðvarinnar hófst í vor og þar með niðurdæling brennisteinsvetnis frá Hellisheiðarvirkjun. Unnið hefur verið að ýmissi aðlögun hennar að virkjuninni síðan en stöðin er þróunar- og tilraunaverkefni byggt á vísindarannsóknum við Hellisheiðarvirkjun allt frá árinu 2007. Gert er ráð fyrir að stöðin hreinsi allt að þriðjung brennisteinsvetnis í útblæstri virkjunarinnar og þar með minnka líkur á því að styrkur þess í andrúmslofti fari yfir mörk í byggð.

Að þessu tilefni fór fram stutt athöfn í Hellisheiðarvirkjun þar sem virkni stöðvarinnar var kynnt. Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, flutti stutt ávarp og Bjarni Már Júlíusson, forstöðumaður tækniþróunar hjá ON og verkefnisstjóri brennisteinsverkefna, afhenti stöðina til reksturs.

Binding koltvísýrings staðfest
Í hreinsistöðinni eru brennisteinsvetni og koltvísýringur skilin frá jarðhitagasinu. Lofttegundirnar eru leystar upp í vatni frá virkjuninni og dælt niður á um 1.000 metra dýpi. Nýlegar rannsóknir á borkjörnum úr berggrunninum á niðurrennslissvæði CarbFix verkefnisins gefa sterklega til kynna að kenningar vísindamanna standist; að koltvísýringurinn kristallist í basalthraununum og þar með sé þessi helsta gróðurhúsalofttegund bundin í jarðlögum um fyrirsjáanlega framtíð. Rannsóknir sýna að 85-90% koltvísýringsins bindist með þessum hætti innan árs frá niðurdælingu.

Tilraunir, sem vísindafólk hér á landi og erlendis hefur unnið að síðustu ár, gefa líka til kynna að brennisteinsvetnið bindist berggrunninum sem steintegundin brennisteinskís eða glópagull. Rannsóknarverkefnin eru þekkt undir heitunum CarbFix og SulFix.

Samkvæmt útreikningum hefur um 1.000 tonnum af brennisteinsvetni verið veitt niður í jarðlög frá því rekstur hennar hófst. Samkvæmt þeirri verkefnisáætlun, sem unnið er eftir, er reiknað með að reka stöðina í eitt ár áður en metið er hvort þessi nýja aðferð ber tilsettan árangur.

Gufuháfur
Samhliða niðurdælingunni er nú til skoðunar að reisa gufuháf ofan við virkjunina. Rannsóknir á veðurfari við virkjunina benda til að með honum megi tryggja aukna dreifingu útblásturs og draga þar með úr styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti. Í umfangsmikilli verkefnisáætlun, sem kynnt var í febrúar 2013, kemur fram að samhliða niðurdælingu muni fyrirtækið skoða aðrar lausnir. Háfurinn er ein þeirra. Aðrar leiðir eru áfram til skoðunar.

Fyrri greinPróteinsjeik að hætti Dr. Hyman
Næsta greinÁsahreppur tapaði í hörkuviðureign