Loftgæðamælar settir upp á Selfossi vegna eldgossins

Frá gosstöðvunum í Geldingadölum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Umhverfisstofnun fór þess á leit við Sveitarfélagið Árborg í sumar að fá að koma upp loftgæðamælum á Selfossi sem lið í því að þétta net loftgæðamæla vegna eldgossins í Geldingadölum.

Umhverfisnefnd sveitarfélagsins tók málið fyrir á fundi sínum í júní og fól mannvirkja- og umhverfissviði að finna þeim hentuga staðsetningu. Nú hafa mælarnir verið settir upp og er hægt að fylgjast með mælingum í nær-rauntíma en upplýsingar frá mælunum uppfærast á tíu mínútna fresti.

Annar mælir brennisteinsdíoxíð (SO2) og brennisteinsvetni (H2S). SO2 kemur m.a. upp í eldgosum en H2S er t.d. helsta mengunaefnið sem kemur frá jarðhitavirkjunum. Þannig að þessi mælir mun koma til með að gefa upplýsingar um styrk H2S á Selfossi sem berst frá Hellisheiðar- og Nesjavallavirkjunum.

Hinn mælirinn er svifryksmælir sem mælir svifryk í þremur mismunandi stærðarflokkum, PM10, PM2,5 og PM1. Svifryk getur átt margskonar uppruna, gosmóðan margumrædda er t.d. fínt svifryk en einnig kemur svifryk frá umferð og jarðvegsfoki.

Hér er hægt er að sjá niðurstöður mælinga

Fyrri greinVatnasvið Jökulfalls og Hvítár friðlýst gegn orkunýtingu
Næsta greinSelfyssingar til í slaginn í Tékklandi