Loftgæðavöktun í Fljótshverfi

Í kjölfar eldgossins í Grímsvötnum í fyrra hóf Umhverfisstofnun mælingar á styrk svifryks á Kirkjubæjarklaustri.

Staðsetning mælisins var valin út frá því að ná til sem flestra íbúa innan áhrifasvæðis öskufoks og þar sem á staðnum er leikskóli, grunnskóli og heilsugæslustöð. Mælingar seinni part vetrar og nú í vor hafa sýnt að ástandið hefur farið batnandi þar og hefur stofnunin því endurmetið þörfina á mælingum á Klaustri.

Í kjölfar athugana hefur Umhverfisstofnun ákveðið að færa mælistöðina austar í sveitarfélaginu, í Fljótshverfi, en þar hefur ástandið verið mun verra að því er heimafólk hefur tjáð stofnuninni.

Ákvörðunin er tekin í ljósi batnandi ástands á Klaustri, og þar sem skóla fer að ljúka. Jafnframt hefur verið haft í huga að bæði íbúar í Fljótshverfi og sveitarstjórn Skaftárhepps hafa óskað ákveðið eftir mælingum í Fljótshverfi. Mælistöðin hefur verið sett upp á Maríubakka.

Fylgjast má með mælingum á styrk svifryks hér og með því að smella á Maríubakka í vallista vinstra megin á síðunni.