Local opnar á morgun

Halldór E. Sigurðsson, framkvæmdastjóri Local. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Á morgun, fimmtudag, mun veitingastaðurinn Local opna að Austurvegi 44 á Selfossi, í sama húsi og Lyfja.

„Við höfum verið að skoða staðsetningar á Selfossi í nokkurn tíma. Okkur bauðst þessi staðsetning frá Lyfju og ákváðum að slá til. Við höfum fengið mikið af fyrirspurnum frá Selfossi um hvenær Local muni opna þar en þetta er sjötti Local staðurinn á landsvísu,“ segir Halldór E. Sigurðsson, framkvæmdastjóri Local, í samtali við sunnlenska.is.

Halldór segir að undirbúningur hafi gengið nokkuð vel. „Við fengum húsnæðið afhent frá Lyfju 15. janúar síðastliðinn en veðrið í janúar og febrúar gerði okkur erfitt fyrir þar sem Hellisheiðin var lokuð í nokkur skipti sem tafði framkvæmdir. Frá byrjun mars hefur þetta gengið nokkuð vel,“ segir Halldór og bætir því við að staðurinn muni skapa um 3-4 full störf

„Local býður upp á hollan og næringarríkan skyndibita sem samanstendur aðallega af salötum, samlokum og súpum. Við erum með yfir sjötíu tegundir af hráefni og viðskiptavinir geta sett saman yfir 100.000 mismunandi tegundir af salötum úr salatbarnum okkar. Local er fyrir fólk á öllum aldri, sem hefur áhuga á að borða hollan og næringarríkan skyndibita,“ segir Halldór en veitingastaðurinn hefur notið mikilla vinsælda síðan fyrsti staðurinn var stofnaður árið 2013.

„Við erum mjög spennt að opna á Selfossi enda mikil uppbygging á svæðinu framundan. Við höfum fengið fyrirspurnir á hverjum degi hvenær staðurinn muni opna, svo við getum ekki beðið eftir því að opna á morgun,“ segir Halldór að lokum og bætir því við að það verði opnunartilboð á staðnum út næstu viku.

Fyrri greinHvert viljum við stefna?
Næsta greinNý hugsun – gjaldfrjáls kennsla