Lögregluvakt hætt í Reynisfjöru

Lögregluvakt í Reynisfjöru í Mýrdal var hætt síðdegis í dag. Unnið hefur verið að uppsetningu aðvörunarskilta og girðinga svo ferðamenn fari sér ekki að voða.

Verkfræðistofan Efla í samvinnu við starfshóp vegna fjörunnar hefur unnið að uppsetningu þeirra.

Tveir lögreglumenn hafa staðið vaktina daglega í Reynisfjöru frá því að banaslys varð þar þann 10. febrúar síðastliðinn. Alda hreif þá með sér kínverskan karlmann, sem sogaðist út með henni og drukknaði.

„Fólk er enn að fara sér að voða þarna þótt að lögregla sé á staðnum, það duttu til dæmis tíu ferðamenn á hausinn síðasta föstudag þegar þeir fengu stóra öldu yfir sig og einn daginn stöðvuðum við tvo karlmenn þegar þeir ætluðu að fara að synda í sjónum,“ segir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, í samtali við Sunnlenska, þegar hann var spurður um ástandið í Reynisfjöru.

Fyrri greinLitlagleði í vetrarfríi á Bókasafninu
Næsta greinAllt þjórfé á Rangá til góðra málefna