Loðnuskip dælir upp úr Landeyjahöfn

Siglingastofnun hefur farið þess á leit við Vinnslustöðina í Vestmannaeyjum að fá uppsjávarskipið Ísleif VE til dýpkunarframkvæmda í Landeyjahöfn.

Þetta kemur fram á vef Eyjafrétta. Kristján Óskarsson, skipstjóri í Vestmannaeyjum, viðraði þá hug­mynd að fá uppsjávarskip til að dæla upp sandi í höfninni og hafði meðal annars borið hugmyndina undir Siglingastofnun. Það hefur nú borið þann árangur að gera á tilraun með að láta dælubúnað skipsins sjúga upp sand í stað loðnu eða síldar.
Sigurður Áss Grétarsson hjá Siglingastofnun staðfestir þetta á vef Eyjafrétta og bætti við að svona búnaður kæmi aldrei í stað dýpkunarskips. „Þetta er tilraunaverkefni að prófa lausan dælubúnað. Við viljum sjá hvernig svona skipi gengur að athafna sig þarna, hvaða ölduhæð er takmark­andi, hvort unnt sé að skilja dælu­búnaðinn eftir og hvernig losun sands­ins dreifist,“ sagði Sigurður.