Lóð og bílastæði fyrir 45 milljónir króna

Kostnaður við stækkun leikskólans Bergheima hækkar um 45 milljóna vegna frágangs lóðar og gerðar bílastæðis við skólann. Ekki hafði verið gert ráð fyrir kostnaðinum í fjárhags-áætlun, þar sem ætlunin var að heildarfjárfesting yrði 195 milljónir króna.

Ný áætlun gerir ráð fyrir að heildarfjárfesting með fullnaðarfrágangi á lóð verði nú um 240 milljónir. Viðbótarkostnaði verður mætt með veltufé, og ekki er gert ráð fyrir lántöku vegna kostnaðar sem fylgir framkvæmdum á þessu fjárhagsári.

Fyrirtækið Grásteinn ehf sér um frágang lóðar og bílastæðis.

Viðbygging við Bergheima er á lokastigi og er ætlað að hægt verði að flytja þangað inn búnað og annað í haust, en ekki hefur verið ákveðið hvenær starfsemi hefst í nýbyggingunni.

Fyrri greinLögreglan líði ekki fjárskort
Næsta greinÍ lystigarði ljúfra kála