Ljúfur draumur rætist á Laugarvatni

Helgi Kjartansson og Haukur Valtýsson handsala samninginn. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Bláskógabyggð og Ungmennafélag Íslands undirrituðu í dag samninga varðandi Íþróttamiðstöðina á Laugarvatni en UMFÍ mun flytja ungmenna- og tómstundabúðir sínar þangað í sumar.

„Ég er eiginlega bara hálf orðlaus. Þetta er búið að vera töluvert ferli í kringum íþróttamannvirkin hérna á Laugarvatni og maður varla trúir því að þessi ljúfi draumur skuli vera að rætast núna,“ sagði Helgi Kjartansson, oddviti Bláskógabyggðar, í ávarpi við athöfnina.

„Þetta byrjaði í febrúar 2016 þegar Háskóli Íslands ákvað að hætta kennslu í íþrótta- og heilsufræði hér á Laugarvatni. Við vorum ekki sátt við þessa ákvörðun og svo er farið í að skrifa undir viljayfirlýsingu um það að reyna að koma annarri starfsemi í þessar eignir. Benedikt Jóhannesson, þáverandi fjármálaráðherra, kláraði þetta ferli með því að færa sveitarfélaginu þessar eignir að gjöf í rauninni. Þetta kostar sveitarfélagið að sjálfsögðu og var kannski ekki alveg það sem við óskuðum en þetta var besta niðurstaðan. Þessi athöfn hér í dag er kannski lokahnykkurinn á þessari viljayfirlýsingu. Það er búið að koma íþróttamannvirkjunum í öruggan rekstur sveitarfélagsins og í háskólahúsinu er kominn af stað rekstur rannsóknarseturs um sveitarstjórnarmál og nú er íþróttamiðstöðin að fara í rekstur í sumar,“ sagði Helgi ennfremur og bætti við að fljótlega í þessu ferli hafi UMFÍ haft samband við sveitarfélagið og ámálgað þetta.

Engin skyndikynni
„Þetta var óskastaðan að fá UMFÍ hérna til okkar. Við hefðum getað leigt húsið í hótelrekstur eða selt það í hótelrekstur en þetta var það sem við vildum og það var gott að vita af áhuga UMFÍ frá fyrsta degi. Þetta eru búin að vera ágætis kynni, þetta voru engin skyndikynni, þetta er búið að taka svolítinn tíma en þetta er öruggt samband og góður samningur og við vönduðum okkur virkilega vel við þetta. Báðir aðilar geta vel við unað. Við fáum betri nýtingu á sundlaugina og íþróttahúsið og við þurfum að halda íþróttavellinum við. Það var mikið líf í þessu húsi og nú kemur líf í það aftur og á þetta svæði hér á Laugarvatni,“ sagði Helgi að lokum.

Vinsælt að komast í heilbrigða hvíld
Undirritunin fór fram í íþróttamiðstöðinni en þar standa nú yfir allsherjar endurbætur innanhúss, svo að allt verði tilbúið fyrir sumarið. UMFÍ mun bjóða upp á ungmenna- og tómstundabúðir í húsnæðinu, ásamt því að íþrótta- og ungmennafélög fá tækifæri til þess að nýta aðstöðuna. Ungmenna- og tómstundabúðir UMFÍ hafa hingað til verið reknar á Laugum í Sælingsdal.

Aðsókn í Ungmenna- og tómstundabúðir UMFÍ hefur aukist mikið síðustu ár enda vinsælt að komast í heilbrigða hvíld þar sem m.a. farsímar og tölvur trufla ekki nemendur. 

Fánaskipti. Að lokinni undirskrift var fáni Bláskógabyggðar í ungmennafélagslundinum dreginn niður og Hvítbláinn, fáni UMFÍ, dreginn að húni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Íþróttamiðstöðin á Laugarvatni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinÁtta HSK met sett á MÍ í frjálsum
Næsta greinRochford með þrefalda tvennu í tapleik