Ljósmynd Jónasar á frímerki

Á morgun, fimmtudag, kemur út frímerki með ljósmynd sem Jónas Erlendsson í Fagradal tók af strandinu á Baldvini Þorsteinssyni í Skarðsfjöru árið 2004.

Um er að ræða svokallað Norðurlandafrímerki en þema þeirra í ár er leitar-og björgunarþjónusta.

Á frímerkinu er þess minnst þegar TF-LIF, þyrla Landhelgisgæslunnar, bjargaði sextán manna áhöfn fjölveiðiskipsins Baldvins Þorsteinssonar EA 10 þann 9. mars 2004. Skipið strandaði í Skarðsfjöru í Meðallandi eftir að það fékk nótina í skrúfuna við loðnuveiðar skammt undan landi.

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar aðstoðuðu við björgunina frá landi. Við gerð frímerkisins var stuðst við verðlaunaljósmynd Jónasar en hönnuður merkisins er Hjörvar Harðarson.

Öldum saman hafa íslenskir sjómenn lifað með hættunni á sjónum og margir týnt lífi í harðri baráttu við öfl náttúrunnar. Landhelgisgæsla Íslands og Slysavarnarfélagið Landsbjörg hafa nána samvinnu um björgunaðgerðir þegar háski steðjar að fólki á sjó eða landi. Fagmennska íslenskra björgunarsveita hefur vakið athygli um heim allan. Landhelgisgæslan gegnir lykilhlutverki við björgun á sjó. Þar eru þyrlurnar öflugar ásamt skipum og flugvélum gæslunnar.