„Ljósið sem fæðist í heiminn getur líka fæðst innra með okkur“

Messað verður í fjárhúsinu á Efra-Apavatni á aðfangadagskvöld. Ljósmynd/Sigríður Jónsdóttir

Á aðfangadagskvöld kl. 23:30 verður stutt helgistund í fjárhúsinu á Efra-Apavatni í Bláskógabyggð.

Séra Dagur Fannar Magnússon, héraðsprestur í Suðurprófastsdæmi, mun sjá um að leiða helgistundina en hann er þekktur fyrir að fara óhefðbundnar leiðir í helgihaldi.

„Fyrir um það bil tvö þúsund árum gerðist sá stórmerki atburður að lítill drengur fæddist í fjárhúsi. Það hefur eflaust verið mjög erfitt og auðmýkjandi að koma barni í heiminn við slíkar aðstæður. Það var nefnilega sjálfur Jesú Kristur og við erum einhvernveginn alltaf með þá hugmynd í kollinum að lifa þessa sögu,“ segir Dagur í samtali við sunnlenska.is. 

„Það er nefnilega svolítið ótrúlegt að Jesús fæddist ekki í kirkju og því mjög erfitt að setja sig inn í sögulegar aðstæður í stórum, hlýjum, hreinum, upplýstum kirkjum. En það er náttúrulega mjög hlýlegt og þægilegt að sitja inn í kirkjunum og heyra svona notalega frásögn, kirkjubyggingarnar standa alveg fyrir sínu. En þannig kom það til að mig langaði að komast nær þeirri upplifun að geta séð fyrir mér upphafið á stórkostlegustu sögu sem nokkurn tímann hefur verið sögð.“

Sr. Dagur Fannar Magnússon. Ljósmynd/Aðsend

Ekki fyrsta fjárhúsamessan
Dagur segir að þetta fjárhús hafi orðið fyrir valin því að hann hafi kynnst bændunum þar, þeim Sigríði Jónsdóttir og Magnúsi Kjartani Eyjólfssyni, svo vel í gegnum fermingarfræðsluna síðastliðinn vetur. 

„Þau eru svo jákvæð, opin og skemmtileg og mér datt í hug að þau væru til í svona nýbreytni og tilraunastarfssemi. Þau voru svo innilega til í þetta að þetta varð bara að rúlla af stað. Ég hef aldrei áður verið með helgistund í fjárhúsi, en það hafa aðrir messað í fjósum, úti í náttúrunni og á öðrum skemmtilegum og skapandi stöðum,“ segir Dagur en þess má geta að séra Óskar Hafsteinn Óskarsson í Hruna hefur haldið messur í bæði fjósi og fjárhúsum.

„Markmiðið er að eiga mjög látlausa stund, þar sem við lítum inn á við og finnum að ljósið sem fæðist í heiminn getur líka fæðst innra með okkur, jafnvel á okkar myrkustu stundum. Við ætlum ekki að flytja neina tónlist, heldur ætlum við bara að syngja Heims um ból í lokin. Markmiðið er að uppsetningin á helgistundinni færi fólki upplifun sem hræri innsta hjartans hörpustreng og að prédikunin felist í því sem við ætlum að gera í helgistundinni frekar en að halda ræðu.“ 

Dagur segir að markmiðið sé enn frekar að fólk opni hjartað og hleypi inn kærleikanum, ástinni og voninni. „Síðan göngum við með þetta allt út í hjarta okkar en samt meðvituð um neyð heimsins, spillinguna, græðgina og vald sem nýtir kúgun til að fá sínu fram, að við getum með kærleikann og vonina að vopni staðið gegn þessum ógnaröflum saman.“  

Jákvæð orka í loftinu
Helgistundin er öllum opin. „Hún er fyrir þá sem eru með opið hjarta og opinn huga, hún er fyrir þá sem vilja knýja fram réttlæti og eru svona frjálsir í anda og vilja ekki láta loka sig í kassa hefðanna.“ 

„Því miður er náttúrulega eins og í öllum byggingum takmarkað pláss en ég geri mér enga grein fyrir því hversu margir kæmust fyrir ef svo ótrúlega vildi til að allt myndi fyllast. En ég veit að við verðum allavega tvær til þrjár fjölskyldur saman og ég er mjög þakklátur fyrir þann fjölda.“

Dagur segir að það hafi almennt verið mjög góðar undirtektir hjá fólki þegar það heyrir af þessari helgistund í fjárhúsinu. „Það virðist vera jákvæð orka í loftinu. Hér erum við að gera tilraun til þess að auka á þjónustu þjóðkirkjunnar með fjölbreyttum hætti og ná til breiðari hóps en þeirra sem almennt sækja kirkjurnar og boða fagnaðarerindið.“ 

Enginn stærri en fagnaðarerindið sjálft
„Þetta þarf ekki að koma í staðinn fyrir hefðbundna messu í kirkjunum okkar, heldur er þetta viðbót og leið til að bæta á fjölbreyttar helgistundir og gefa fólki valið. Mér þætti því alveg ótrúlega sérstakt ef einhverjir ætluðu að reyna að standa í vegi fyrir útbreiðslu fagnaðarerindisins, enda er enginn stærri en fagnaðarerindið sjálft. En ég meina, Jesús þurfti að glíma við stóra fiska á sínum tíma úr sínu trúarlega samfélagi. Ég held að ég þurfi nú ekki að feta þann veg, en það er allt í lagi þótt einhverjum finnist þetta vera eitthvað skrítið.“ 

„Fagnaðarerindið verður boðað í fjárhúsinu við Efra-Apavatn kl.23:30 á aðfangadagskvöld vonandi flestum til gleði og fagnaðar. Við viljum beina því til fólks að koma í hlýjum fötum en ekki koma í skítugum fjárhús stígvélum og skítagalla. Það er nýbúið að moka út úr fjárhúsinu svo þau eru mjög snyrtileg. Það er betra að viðra úlpuna sína daginn eftir til að losna við fjárhús lyktina úr henni. Svo viljum við biðja hvern og einn um að koma með eitt kerti til þess að halda á,“ segir Dagur að lokum.

Viðburðurinn á Facebook

Fyrri greinHafsteinn útnefndur blakkarl ársins
Næsta greinGul viðvörun: Hvassviðri og snjókoma